#

Skrá yfir þýðingar Íslendingasagna

Skrá þessari er ætlað að ná yfir allar þýðingar Íslendingasagna og þátta, Eddukvæða, biskupasagna, fornaldarsagna, riddarasagna og konungasagna frá upphafi til dagsins í dag.

Á tíunda áratug síðustu aldar tóku tveir bókasafnsfræðingar á Háskólabókasafni, Áslaug Agnarsdóttir og Ingibjörg Árnadóttir (1941-2007), að sér að taka saman skrá yfir þýðingar á Íslendingasögum að beiðni Úlfars Bragasonar, forstöðumanns Stofnunar Sigurðar Nordal. Þótt langt sé síðan vinna hófst við skrána er hún enn í vinnslu enda bætast stöðugt við nýjar þýðingar. Upphaflega var skráin hugsuð sem framhald af skrám þeim sem birst höfðu í ritröðinni Islandica sem gefin er út af bókasafni Cornell háskóla í Bandaríkjunum. Tekið var mið af skrám Halldórs Hermannssonar, Jóhanns S. Hannessonar, Marianne E. Kalinke og P.M. Mitchell sem höfðu birst í fyrrnefndri ritröð. Efnis var aflað í bókfræðiritum og á netinu, auk þess sem leitað var í skrám bókasafna í Reykjavík, Kaupmannahöfn og Lundúnum. Einnig hafa borist margvíslegar ábendingar frá fræðimönnum og bókavörðum vítt og breitt um heiminn. Forritið sem skráð er í var hannað í upplýsingatæknideild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Hafa ber í huga að enn vantar efni í skrána, sérstaklega eldri þýðingar, en stöðugt er unnið að því að skrá þetta efni og bæta við það. Allar ábendingar eru vel þegnar. Umsjónarmaður skrárinnar er Guðrún Laufey Guðmundsdóttir, gudrun.l.gudmundsdottir(hjá)landsbokasafn.is, og tekur hún fúslega við upplýsingum um nýjar þýðingar og annað sem kann að vanta.